Áfallahjálp
Meðferð byggir á sál-líkamlegum meðferarmódelum við áfallastreitu og hugrænni atferlismeðferð:
þegar áfall er nýafstaðið er mikilvægasta meðferðin að veita sálræna skyndihjálp og að styðja við og styrkja einstaklinginn til þess að efla stuðning í nærumhverfi. Oft er það nóg til þess að fyrirbyggja að einstaklingur þrói með sér áfallastreitu. Þegar lengra er liðið frá áfallinu og fyrsti stuðningur hefur verið veittur og einkenni eru enn til staðar, má byja að vinna með áfallið.
Atburðir sem geta valdið áfallastreitu eru til dæmis:
- Líkamsárás eða ógnun um líkamsárás.
- Nauðgun
- Slys svo sem bílslys, flugslys eða sjóslys
- náttúruhamfarir (eldgos, snjóflóð, jarðskjálfar)
- Vitni að slysi eða dauða annars einstaklings
- Missir, svo sem dauði eða alvarleg veikindi ættingja eða náinna vina.
- Skurðaðgerðir eða meiriháttar læknismeðferðir.
- Erfið fæðing
SE (Somatic Experiencing) og EMDR (Eye Movement Desensitization and Reprocessing) eru tvær skyldar meðferðarnálganir þar sem báðar aðferðirnar byggja á sál-lífeðlisfræðilegum grunni.
SE nálgunin skilgreinir áfallastreitu sem afleiðingu af því að fórnarlambið hefur hvorki getað varið sig með því að flýja af hólmi eða með því að berjast á móti. Í þeirri stöðu er mönnum og dýrum eðlislægt að frjósa eða dofna til þess að finna sem minnst fyrir þeim hamförum sem yfir þau ganga. Í mörgum tilvikum lagast óþægindin af sjálfum sér þegar líður á og áfallastreitan er þá aðeins tímabundið ástand. Sumir á hinn bóginn “festast” og þróa með sér einkenni áfallastreituröskunar.
SE miðar að því að leysa úr læðingi hin eðlilegu varnarviðbrögð sem “frusu” í líkamanum við áfallið og þar með að hjálpa þolandanum við að klára ferlið. Sú vinna minnkar líkamleg einkenni áfallastreitunnar, ásamt því að draga fram þau tilfinningaviðbrögð sem hafa fest sig í sessi eftir áfallið svo sem til dæmis kvíða, þunglyndi eða fælni. Síðasta skrefið er að setja einkenni, tilfinningar og minningu í rökrænt samhengi og öðlast skilning á því sem skeði.
það er misjafnt hvað það tekur langan tíma að vinna með þessi skref og upplifa betri líðan, en rannsóknir hafa sýnt að þessi meðferðarnálgun hefur að öllu jöfnu gefið góðan árangur í meðhöndlun á áfallastreitu.
Sjá meira um SE á: http://www.traumahealing.com, einnig grein í Morgunblaðinu: http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=677934).
EMDR meðferðarnálgunin skilgreinir áfallastreitu sem afleiðingu af því að atburðurinn eða atburðirnir hafa kóðast á óheppilegan hátt í minninu, þ.e. spennan, óttinn og varnarleysið sem fórnarlambið upplifði þegar atburðurinn átti sér stað getur upplifiast alveg eins sterkt löngu seinna, í ákveðnum aðstæðum. Upplifunin getur birst í endurteknum hugsunum og sýnum tengdar atburðinum eða með streitueinkennum sem líkjast þeim sál-líkamlegum viðbrögðum sem viðkomandi fann fyrir þegar atburðurinn átti sér stað.
EMDR meðferð miðar að því að afkóða eða afvopna þessa óþægilegu minningu með því að aftengja hana frá streituviðbrögðum, minningarbrotum og óvelkomnum hugsunum um atburðinn. Þetta er gert með svokallaðri “bilateral stimulation” þar sem hægri og vinstri heilahvel eru stimuleruð, venjulega með því að skjólstæðingurinn fylgir eftir með augunm fingrum meðferðaraðilans sem hann hreyfir frá hægri til vinstri eftir ákveðnu kerfi. þetta kallar fram sambærilegt ástand og við upplifum í REM svefnástandi, en það er það stig svefns þar sem við hreyfum augun fram og til baka sem mest og talið er að tengist því að við séum að endurvinna atburði dagsins og koma þeim á þann stað í minninu þar sem þeir eru ekki að trufla okkur næstu daga með stöðugum endurupplifunum. EMDR augnhreyfingarnar líkja með örðum orðum eftir REM augnhreyfingunum. Þannig er hægt að virkja þetta náttúrulega hreinsikerfi í vöku til þess að endurkóða þessar erfiðu minningar svo við getum haldið áfram með lífið án þeirra. Það sem gerist í EMDR meðferð er að minningin smám saman missir mátt sinn, Þ.e. við hættum að finna fyrir óþægindum þegar við hugsum um það sem gerðist.
Sjá meira um EMDR á: http://www.emdria.org/
Sjá meira um CBT-Trauma á: http://tfcbt.musc.edu/